Kammerkórinn Schola cantorum var stofnaður 1996 af stjórnanda kórsins, Herði Áskelssyni. Kórinn hefur jafnan verið mikilvirkur í frumflutningi tónverka eftir íslensk tónskáld og annarri samtímatónlist auk flutnings á endurreisnar- og barokktónlist.
Schola cantorum gaf út hljómdiskana Principium (1999) með tónlist 16. og 17. aldar og Heyr himna smiður (2001) sem geymir íslenska samtímatónlist. Einnig tók kórinn þátt í heildarútgáfu á verkum Jóns Leifs ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á vegum sænska útgáfufyrirtækisins BIS. Árið 2010 kom svo út verkið Hallgrímspassía eftir Sigurð Sævarsson með Schola cantorum, Caput og einsöngvurum.
Sumarið 2012 sendi kórinn frá sér hljómdiskinn Foldarskart sem inniheldur íslenskar kórperlur, ungar sem gamlar. Sama ár kom út diskurinn Flétta með samnefndu verki eftir Hauk Tómasson en ásamt Schola cantorum frumfluttu Mótettukórinn og Kammersveit Reykjavíkur verkið á Listahátíð í Reykjavík 2011. Árið 2013 gaf enska útgáfufyrirtækið Resonus Classics út disk þar sem Schola cantorum syngur kórverk eftir Hafliða Hallgrímsson frá síðustu árum.
Schola cantorum var útnefndur tónlistarhópur Reykjavíkur árið 2006.
Kórinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013 sem flytjandi ársins í sígildri og samtímatónlist.