Um Kirkjulistahátíð

Kirkjulistahátíð 2019 1. – 10. júní

KIRKJULISTAHÁTÍÐ er haldin í 15. sinn í Hallgrímskirkju frá 1.–10. júní 2019 og

verður sett með viðhöfn laugardaginn 1. júní kl. 15.

Þegar Listvinafélag Hallgrímskirkju hleypti hátíðinni af stokkunum árið 1987 var henni valinn tími í kringum hvítasunnu með það að markmiði að halda hana annað hvert ár, það ár sem Listahátíð í Reykjavík var ekki haldin. Þetta gekk eftir fyrstu árin, en þegar Listahátíð í Reykjavík var gerð að árlegum viðburði var Kirkjulistahátíð flutt á annan tíma og hefur verið á ýmsum tímum ársins síðan, um páska og í ágúst. Nú þegar Listahátíð í Reykjavík er orðin að tvíæringi á ný gafst svigrúm til að færa Kirkjulistahátíð aftur á sinn upprunalega tíma. Það er í samræmi við upphaflegt markmið hátíðarinnar, að sækja sköpunarkraft til anda hvítasunnunnar og um leið að lyfta upp merkjum þeirrar fornu kirkjuhátíðar.

Nýsköpun í tónlist og myndlist er stór þáttur Kirkjulistahátíðar 2019.

Tvö tónverk fyrir einsöngvara, kóra og hljómsveit, óratórían Mysterium op 53 eftir Hafliða Hallgrímsson og kantatan Veni sancte Spiritus eftir Sigurð Sævarsson, verða frumflutt sitt hvora helgina, með aðkomu fjölmargra framúrskarandi flytjenda, Schola cantorum, Mótettukórs Hallgrímskirkju, Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Hallgrímskirkju, Kammersveitar Hallgrímskirkju og einsöngvara. Einsöngvarar í flutningi á Mysterium eru Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Hanna Dóra Sturludóttir alt, Elmar Gilbertsson tenór og Oddur A. Jónsson bassi. Einsöngvarar með Schola cantorum í frumflutningi á kantötu Sigurðar Sævarssonar eru Hildigunnur Einarsdóttir alt og Benedikt Kristjánsson tenór.

Finnbogi Pétursson myndlistarmaður opnar sýningu sem teygir sig úr Hallgrímskirkju eftir ósýnilegum leiðum yfir í Ásmundarsal. Klukknaspil Hallgrímskirkju verður nýtt til samspils við stóra orgelið í kirkjunni með hjálp íslenskra tónskálda raftónlistar undir forystu Guðmundar Vignis Karlssonar.

Boðið verður upp á tuttugu tónleika, kynningar og helgistundir með íslensku tónlistarfólki, sem kemur fram með erlendum gestum.

Tónlistarhópurinn Umbra flytur „Rauðu bókina“ frá Montserrat ásamt listakonunni Marinu Albero sem leikur m.a. á hið forna hljóðfæri psalterium. Trompetleikararnir Jóhann Nardeau og Baldvin Oddsson halda tónleika með franska orgelleikaranum David Cassan við Klaisorgelið. Kontratenórinn David Erler, Benedikt Kristjánsson tenór, Oddur A. Jónsson bassi og Herdís Anna Jónasdóttir sópran verða einsöngvarar í upprunaflutningi á þremur kantötum eftir Bach, ásamt kórum Hallgrímskirkju og Alþjóðlegu barokksveitinni. Kantöturnar hljóma bæði við helgihald og á tónleikum. Alþjóðlega barokksveitin verður auk þess með barokktónleika með verkum eftir Vivaldi, Telemann og Bach á hvítasunnudag. Halldór Hauksson býður upp á sýninguna Útlendingurinn, þar sem hann vinnur með samnefnt verk Alberts Camus í tali og tónum. Í samvinnu við Ásmundarsal við Freyjugötu verður boðið upp á tónleikaspjall og ýmsar uppákomur á kaffihúsi og í sýningarsal hússins á meðan á Kirkjulistahátíð stendur, en sýning Finnboga í sýningarsalnum speglar ómrými Hallgrímskirkju með sérstökum hætti. Einnig er Kirkjulistahátíð í samvinnu við Hótel Holt, sem styrkir hátíðina og býður gestum Kirkjulistahátíðar m.a. upp á að njóta veitinga á sérstökum kjörum umkringd listaverkum okkar fremstu íslensku listamanna.

Helgihald Kirkjulistahátiðar er mjög fjölbreytt og leiða prestar Hallgrímskirkju, dr. Sigurður Árni Þórðarson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir það og njóta aðstoðar messuþjóna, organisti er Björn Steinar Sólbergsson og gestakórarnir Hljómeyki og Graduale Nobili koma þar fram auk þess kórar kirkjunnar og Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju.

Alls koma fram um 200 flytjendur fram á Kirkjulistahátíð 2019. Helstu styrktaraðilar eru Hallgrímssöfnuður, Reykjavíkurborg, Markus P. Möller, Listvinafélag Hallgrímskirkju, Hótel Holt Tónlistarsjóður og Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Auk þess skipa sjálfboðaliðar stóran sess í að gera hátíðina mögulega og eru félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju þar fremstir í flokki.