Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur. Síðar stundaði hún framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur lauk nýverið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands. Hildigunnur stjórnar kórum og leiðir tónlistarsmiðjur um allt land og syngur m.a. með Schola cantorum og Kór Íslensku óperunnar.
Hildigunnur kemur reglulega fram sem einsöngvari hérlendis sem erlendis og af nýlegum verkefnum má nefna Klassíkin okkar, opnunartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíuna, Jóhannesarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hún söng nýlega hlutverk móðurinnar í Hans og Grétu hjá Íslensku óperunni. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus.