Hljómeyki

Sönghópurinn Hljómeyki hélt sína fyrstu tónleika í Norræna húsinu 23. mars árið 1974. Hljómeyki skipaði sér þegar í fremstu röð íslenskra kóra og hefur á þeim áratugum sem liðnir eru flutt ógrynni verka af margvíslegu tagi, allt frá fjölradda kórmúsík endurreisnarinnar til íslenskrar rokktónlistar samtímans. Kórinn leggur mikla áherslu á flutning nýrrar íslenskrar tónlistar. Hann hefur frumflutt tugi verka eftir mörg helstu tónskáld landsins og tekur iðulega þátt í tónlistarhátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist, svo sem Myrkum músíkdögum og Norrænum músíkdögum.

Hljómeyki kemur iðulega fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og er í reglulegu samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Þá hefur Hljómeyki komið fram með hljómsveitunum Todmobile, Sólstöfum, Skálmöld og Dúndurfréttum.

Hljómeyki hefur gefið út sex geisladiska, með verkum eftir íslensk tónskáld. Kórinn hefur einnig flutt krefjandi a cappella verk meðal annars Náttsöngva Rakhmaninovs, Kórkonsert Schnittkes, Púskinsveig eftir Sviridov og nú síðast stórvirkið Path of Miracles eftir Joby Talbot.

Stjórnandi Hljómeykis er Þorvaldur Örn Davíðsson.