Finnbogi Pétursson hélt fyrstu myndlistarsýningu sína árið 1980 og er einn af fremstu
myndlistarmönnum á Íslandi. Hann er þekktur fyrir verk þar sem saman koma hljóð, ljós, skúlptúr, arkitektúr og teikningar. Þar gegnir hljóð iðulega mikilvægu hlutverki þar sem það rennur saman við innsetningar og rýmisverk. Finnbogi kom fram á Feneyjatvíæringnum fyrir Íslands hönd árið 2001 með hinni tröllauknu hljóðinnsetningu sinni Diabolus. Meðal listasafna sem hýsa verk Finnboga má nefna T-B A21 í Vínarborg, Michael Krichman og Carmen Cuenca-safnið í Bandaríkjunum, Listasafnið í Malmö, Nordiska Akvarell-safnið í Svíþjóð og Listasafn Íslands.
Verk hans er einnig að finna í höfuðstöðvum Landsvirkjunar, í Vatnsfellsvirkjun, Háskólanum í Reykjavík, á Landspítalanum og í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur.