Benedikt er fæddur 1987 á Húsavík. Hann hóf söngnám 16 ára gamall við Söngskólann í Reykjavík hjá Sibylle Köll og síðan Margréti Bóasdóttur. Samhliða námi söng hann í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðakórnum undir stjórn Þorgerður Ingólfsdóttur. Benedikt lauk framhaldsprófi í söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 þar sem Margrét Bóasdóttir og Krystyna Cortes voru kennarar hans. Haustið 2008 fékk hann inngöngu í Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín, þar sem kennari hans er Prof. Scot Weir.
Benedikt hlaut 1. verðlaun í alþjóðlegri Bach söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Benedikt hlaut verðlaun áheyrenda í alþjóðlegu Bach keppninni í Leipzig sumarið 2012 og var valinn Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum það sama ár. Það ár hlaut hann einnig styrk úr Jean Pierre Jaquillat sjóðnum í Reykjavík.
Hann hefur sótt masterklassa hjá Peter Schreier, Christu Ludwig, Elly Ameling, Robert Holl, Andreas Schmidt, Thomas Quasthoff og Helmuth Deutsch.
Sem guðspjallamaður í passíum J.S Bach, og öðrum óratoríum, hefur Benedikt komið fram í Berlin, Osló, Zürich, Den Haag, Szczechin, og Jerusalem. Einnig söng hann guðspjallamann í Jóhannesarpassíu J.S. Bach í beinni útsendingu þýska sjónvarpsins á föstudaginn langa 2012. Á næsta ári verður hann á ferðalagi um Holland sem guðspallamaður í Matteusarpassíunni undir stjórn Reinbert de Leeuw.
Benedikt söng hlutverk Morphée í uppfærslu af Atys eftir Lully í Óperuhúsinu í Kiel. Hann söng titilhlutverk í óperunni Skraddarinn hugprúði eftir Wolfgang Mitterer sem sýnd var í Staatsoper í Berlín 2012, og hefur eftir það tekið þátt í mörgum verkefnum þar. Má þar nefna Diary of the one who Disappeared eftir Leos Janacek sem hlaut mikið lof gagnrýnanda og verður flutt aftur á næsta ári.
Benedikt hefur einnig lagt mikla rækt við ljóðasöng og flutt m.a. ljóðaflokkana Dichterliebe eftir Schumann og Die schöne Müllerin eftir Schubert á Íslandi og í Þýskalandi.