Franski orgelleikarinn David Cassan er einn helsti orgelleikari yngri kynslóðarinnar í Evrópu. Hann nam við tónlistarháskóla í Caen og Lyon, en meðal kennara hans voru Thierry Escaich og Philippe Lefebvre. Cassan er eftirsóttur konsertorganisti og hefur komið fram með flestum helstu hljómsveitum Frakklands og haldið tónleika í fjölmörgum löndum.
Hann leggur sig helst eftir verkum eftir Johann Sebastian Bach og eftir frönsk tónskáld frá 19. og 20. öld. Cassan hefur sérstakt dálæti á orgelspuna og leikur reglulega undir þöglum kvikmyndum á orgel eða píanó. Hann hefur hlotið mörg verðlaun í orgelkeppnum, til að mynda í Chartres í Frakklandi, St Albans á Englandi og í Haarlem í Hollandi.
Í kjölfar sigra sinna hefur hann verið beðinn um að sitja í dómnefndum í slíkum keppnum. Cassan heldur meistaranámskeið fyrir orgelnemendur víða um lönd og kennir orgelleik og orgelspuna við tónlistarháskóla í Nancy og Saint-Maur-des-Fossés í Frakklandi.
David Cassan er aðalorganisti (titulaire du Grand-Orgue) við Oratoire du Louvre-kirkjuna í París.
Heimasíða: www.davidcassan.com