Helgi Þorgils Friðjónsson fæddist árið 1953 í Búðardal í Dalasýslu. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var við framhaldsnám í De Vrije Academie í Den Haag í Hollandi og við Jan van Eyck Academie í Maastrict í Hollandi.
Helgi er afar virkur í sýningahaldi bæði innan lands og utan og hefur haldið sýningar víða í Evrópu og Bandaríkjunum frá árinu 1974, m.a. á XI Biennale de Paris í Frakklandi 1980, Thick Air, Fodor Museum í Amsterdam 1983, á XLIV Feneyjatvíæringnum 1990, Prospect ´93 í Frankfurt 1993 og Confronting Nature í Corcoan Gallery of Art í Washington D.C. árið 2002. Á þessu ári hefur Helgi þegar sýnt á Ítalíu og í Reykjavík og haldið einkasýningu í Þýskalandi.
Frá árinu 1980 hefur Helgi rekið lítið sýningarrými, Gallerí gang, í þeim tilgangi að fá nýja, erlenda listamenn til að sýna á Íslandi.
Fimm krossfestingar, Ský og Marmari
Ég var að klára málverkið FIMM KROSSFESTINGAR, sem ég hafði verið að vinna að í tvö ár, þegar Ármann Reynisson vinjettuskáld kom í heimsókn til mín vegna bókarkápu sem ég var að gera fyrir bókina hans 88 stories around Iceland. Málverkið, sem er 8 metrar að lengd, greip hann, og hann sagði eins og ósjálfrátt að það væri gaman að sjá þessa mynd í Hallgrímskirkju. Ég var ekki búinn að hugsa neinn stað fyrir myndina frekar en oft áður, en fannst hugmyndin góð og hafði samband við Hörð Áskelsson, sem leist strax vel á. Svo fór venjulegt ferli í gang.
Málverkið FIMM KROSSFESTINGAR er í myndröð sem byggir á verkum eldri meistara, með sjálfsmynd minni, sem er þó í raun mynd þeirrar persónu sem er að skoða myndina, og hugsuð þannig að hugmyndin um myndverkið fari frá áhorfandanum í gegnum málarann og þaðan í frásögnina. Bakgrunnurinn er jafntóna skýjafar og krossarnir mynda geometríska byggingu. Hvort það eigi að lesa verkið sem trúarlegt fer eiginlega eftir áhorfandanum, en öll hugræn átök eru í sjálfu sér trúarleg. Menn hugsa um þjáningu hins krossfesta, en fyrir trúaðan mann held ég að píslarvætti sé ekki bein þjáning, eins og við skiljum orðið, heldur einskonar upplifun og hreyfing á tíma. Málverkið hefur jafn miklar tilvísanir til módernismans og málverks tuttugustu aldarinnar eins og trúarsögunnar, en bræðingurinn er hugmynd um tilvist mannsins.
Orðið maður nota ég um karl og konu og menningu, eða kúltúr.
Ég málaði málverkið SKÝ fyrir 1000 ára kristnihátíðina á Þingvöllum árið 2000. Myndin var hengd upp á hamravegginn rétt við Öxarárfoss og varð úðinn frá fossinum hluti verksins sem tákn um hringrásarferli og í raun að síðan Jóhannes Skírari vígði vatnið, er allt vatn vígt. Hugmyndina sótti ég í þá sömu hugmynd sem er grunnurinn að bláum himnamyndum í kirkjuhvolfi, sem tengja saman himinn og jörð. Ég vildi opna bergið með þeirri hugmynd, sem bæði tengir áhorfandann upp í himininn og við hugmyndina um heiminn, en líka inn í dulúðina, sem býr í tungumálinu um tilvistina, um dverga og álfa o. s. frv.
Verkið MARMARI er gert sérstaklega fyrir sýninguna, eins og flest verkanna. Myndirnar eru málverk á striga, sem sýna skúlptúr. Með innrömmunni í hurðirnar, er það sett í samhengi við víddir sem opnast og lokast. Marmarinn er fastur og þungur, en performans er eitthvað sem hefur framvindu. Hreyfialf er í hugmyndinni um hurð, þó hún sé kyrrstæð, en sjálfur performansinn er í snúningi jarðar. Þannig tengist hann heiminum og hugmyndum okkar um heiminn.
Öll verkin á sýningunni eru á einhvern hátt tengd þessari hugleiðingu.
Helgi Þorgils Friðjónsson