Herdís Anna Jónasdóttir lærði á fiðlu, píanó og söng frá unga aldri við Tónlistarskólann á Ísafirði. Hún fór í framhaldsnám í söng við Listaháskóla Íslands og Hochschule für Musik “Hanns Eisler” í Berlín.
Hún kláraði Konzertexamen árið 2012 með ágætiseinkunn og var þá ráðin að óperustúdíóinu við Óperuna í Zürich. Árin 2013-2018 var hún fastráðin við Saarlensku ríkisóperuna í Saarbrücken, en er nú sjálfstætt starfandi og búsett í Berlín. Herdís hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum í Þýskalandi, Íslandi og Sviss.
Meðal helstu hlutverka eru Adina (Ástardrykkurinn), Adele (Leðurblakan), Zerlina (Don Giovanni), Drottningin frá Schemacha (Gullni haninn), Maria (West Side Story), Eliza (My Fair Lady), Nannetta (Falstaff) og Oscar (Grímudansleikur).Herdís hefur einnig margsinnis komið fram á tónleikum, s.s. með Kammersveit Reykjavíkur, á Carl-Orff tónlistarhátíðinni, með Saarlensku ríkishljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Canberra, Ástralíu.
Herdís hefur tvívegis sungið með Íslensku óperunni, árið 2012 Musettu í La Boheme, og nú nýverið hlutverk Violettu Valéry í La traviata eftir Verdi.
Hún hefur einnig oft komið fram undir stjórn Harðar Áskelssonar og söng m.a. sópranhlutverkið í heildarflutningi á Jólaóratóríunni I-VI eftir J.S. Bach með Mótettukór Hallgrímskirkju í Hörpu í tilefni af 30 ára afmæli kórsins og einnig á Mozarttónleikum í Hallgrímskirkju, Kirkjulistahátíð o.fl.