Isabelle Demers er Kanadamaður frá Québec. Hún lauk doktorsprófi frá Juilliard-tónlistarháskólanum í New York og kennir orgelleik við Baylor-háskóla í Texas. Hún er meðal fremstu orgelleikara í Norður-Ameríku og hefur ferðast víða til tónleikahalds.
Undanfarin misseri hefur hún til dæmis komið fram í Maison Symphonique í Montréal, í Elbphilharmonie-höllinni í Hamborg og í Westminster Abbey í Lundúnum. Gagnrýnendur hafa lofað leik hennar mjög og sagt hana hafa einstakan hæfileika til að láta orgelið syngja. Hún er sögð búa yfir afburðatækni og fádæma listfengi.
Leik hennar má heyra á geislaplötum sem hlotið hafa góða dóma. Þar má nefna plötuna The Old and the New þar sem hún leikur verk eftir Johann Sebastian Bach, Sergei Prókófíev og Max Reger; plötu með verkum eftir kanadíska tónskáldið Rachel Laurin sem út kom árið 2011; plötu með kóralfantasíum Max Regers; og loks hljóðritun frá árinu 2018 þar sem hún leikur á orgel með Baylor-háskólakórnum í Requiem eftir Maurice Duruflé. Isabelle Demers kemur nú fram í fyrsta sinn á Íslandi.