Benedikt Kristjánsson

Benedikt Kristjánsson

Benedikt Kristjánsson

Benedikt Kristjánsson er fæddur 1987 á Húsavík. Hann hóf söngnám 16 ára gamall við Söngskólann í Reykjavík hjá Sibylle Köll og síðan Margréti Bóasdóttur. Samhliða námi söng hann í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðakórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Benedikt lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2007 þar sem Margrét Bóasdóttir var kennari hans.
Þar á eftir stundaði hann nám við „Hanns Eisler“ tónlistarháskólann í Berlín, þar sem aðalkennari hans var Prof. Scot Weir. Hann útskrifaðist þaðan árið 2015.

Benedikt hlaut 1. verðlaun í alþjóðlegri Bach söngkeppni í Greifswald í júní 2011 og einnig verðlaun áheyrenda. Hann hlaut verðlaun áheyrenda í alþjóðlegu Bach keppninni í Leipzig sumarið 2012, fékk styrk úr Jean Pierre Jaquillat sjóðnum, og var valinn Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Árið 2016 var hann valinn Söngvari ársins í sígildri og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Hann hefur sótt Masterklassa hjá Peter Schreier, Christu Ludwig, Elly Ameling, Robert Holl, Andreas Schmidt, Thomas Quasthoff og Helmuth Deutsch.

Sem guðspjallamaður í passíum J.S Bach, og öðrum óratoríum, hefur Benedikt komið fram víðsvegar um Evrópu og í Bandaríkjunum og sungið með hljómsveitum eins og Deutsche Kammerphilharmonie Bremen, Staatskapelle Berlin, Dresdner Barockorchester, Freiburger Barockorchester og Gaechinger Cantorey.

Hann hefur komið fram sem einsöngvari í mörgum af stærstu tónleikahúsum heims, eins og Fílharmoníunni í Berlín, Concertgebouw Amsterdam, Chapelle Royal í Versölum, og í Walt-Disney Hall í Los Angeles.

Einnig hefur hann sungið í Óperuhúsunum Staatsoper Berlin, Theater Kiel og Staatstheater Braunschweig.

Hann hefur unnið með mörgum virtum stjórnendum, þar má nefna Reinhard Goebel, Reinbert de Leeuw, Christoph Spering, Peter Dijkstra, Vaclav Luks, Hans-Christoph Rademann og Philippe Herreweghe.

Á þessu ári kom út fyrsta sóló-plata Benedikts, “Drang in die Ferne”, sem hlaut mikið lof gagnrýnenda, meðal annars í hinu virta dagblaði Süddeutsche Zeitung.

Á plötunni má heyra Íslensk þjóðlög og sönglög eftir Franz Schubert.

Á dagskránni árið 2020 eru meðal annars sóló tónleikar á Bachfest Leipzig og í Elphilharmonie í Hamborg, upptaka af óperunni “Les Boreádes” eftir Rameau undir stjórn Vaclav Luks og tónleikaferðalag með Gaechinger Cantorey um Norður-Ameríku undir stjórn Hans-Christoph Rademann.