Georgia Browne

Flautuleikarinn Georgia Browne er frá Perth í Ástralíu. Eftir tónlistarnám þar komst hún í kynni við löndu sína Kate Clark, og hélt þá til náms hjá henni og Barthold Kuijken við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Browne útskrifaðist þaðan með láði og haslaði sér völl í evrópsku tónlistarlífi árið 2004 með því að leika fjörlegan flautukonsert eftir Vivaldi í beinni útvarpsútsendingu úr Quirinale-höll í Róm.

Síðan þá hefur Browne verið eftirsóttur flautuleikari og kennari. Hún er fyrsti flautuleikari í sveitinni Ensemble Pygmalion og leikur þar undir stjórn Raphaëls Pichons. Hún leikur reglulega með sveitum á borð við Arcangelo, Dunedin Consort, The English Concert og Orchestra of the Age of Enlightenment og hefur unnið með stjórnendum eins og Jonathan Cohen, David Bates, John Butt og Harry Bicket.

Georgia Browne hefur unnið mikið með íslenska tónlistarhópnum Nordic Affect að ýmsum verkefnum, til að mynda geislaplötu með verkum eftir Carl Friedrich Abel.

Georgia Browne kennir við háskólana í Southampton og Birmingham, kennir á meistaranámskeiðum um víða veröld og stendur fyrir sumarnámskeiðum í flautuleik í Frakklandi.