Hörður Áskelsson

Hörður Áskelsson fæddist á Akureyri árið 1953. Hann stundaði tónlistarnám á Akureyri og í Reykjavík en fluttist síðan til Düsseldorf í Þýskalandi árið 1976 til þess að nema við Robert Schumann Hochschule. Þaðan útskrifaðist hann svo með láði1981.Hörður Áskelsson

Eftir útskrift starfaði Hörður sem organisti við Neanderkirkjuna í Düsseldorf um árs tíma en fluttist síðan til Reykjavíkur og hefur upp frá því verið organisti og kórstjóri við Hallgrímskirkju. Strax árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og var einn af stofnendum Listvinafélags Hallgrímskirkju, en kórinn og Listvinafélagið eru hornsteinar listastarfsins í kirkjunni. Árið 1987 ýtti Hörður Kirkjulistahátíð úr vör, en sú hátíð hefur upp frá því verið haldin annað hvert ár að jafnaði. 1993 hóf Alþjóðlega orgelsumarið göngu sína í Hallgrímskirkju fyrir hans tilstilli og 1996 stofnaði hann kammerkórinn Schola Cantorum, sem er í dag einn virtasti kór landsins.

Hörður hefur notið velgengni í störfum sínum og hlotið margvíslegar viðurkenningar. Hann hefur ásamt kórum sínum tekið þátt í ýmsum tónlistarhátíðum og keppnum á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars unnið til verðlauna í Cork á Írlandi árið 1996, Noyon í Frakklandi 1998, á Ítalíu árið 2002 og nú nýlega, 2014, á Festival Cancó Mediterrànea. Hann hefur stjórnað fjölda óratóría, oft með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumflutt nýjar, íslenskar tónsmíðar. Hefur flutningur hans oftsinnis verið tekinn upp fyrir sjónvarp og útvarp og verið gefinn út á geislaplötum. Upptaka á Passíu Hafliða Hallgrímssonar, sem gefin var út af hinu virta útgáfufyrirtæki Ondine, hlaut framúrskarandi umfjöllun í BBC Music Magazine, Gramophone, International Record Review og fleiri miðlum.

Hörður hefur jafnframt kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og árin 1985–95 kenndi hann litúrgísk fræðu við guðfræðideild Háskóla Íslands. Árið 2000 var hann tónlistarstjóri hátíðarhalda í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi og árið 2002 fékk hann bæði Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir störf sín á árinu 2001. Hörður var útnefndur Borgarlistamaður 2002 og hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 2004. Milli 2005 og 2011 gegndi Hörður starfi söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar.

Pdf - Icon Lesa meira