Marina Albero Tapaso

Marina Albero fæddist og ólst upp í Barcelona í Katalóníu. Hún óx úr grasi í fjölskyldu tónlistarmanna sem ferðaðist um heiminn og lék þjóðlagatónlist. Hún nam píanóleik við Tónlistarháskóla Barcelona-borgar, sem nefndur er El Bruc, og síðan við Instituto Superior de Arte í Havana á Kúbu. Aðalkennari hennar þar var Teresa Junco. Marina Albero hefur lagt stund á afar fjölbreytta tónlist, allt frá tónlist fyrri alda og flamenkó-tónlist til djass og latíndjass.

Hún fæst oft við tónsmíðar og hefur gaman af því að spila af fingrum fram. Marina Albero hefur sérhæft sig í að spila á miðaldahljóðfærið psalterium, sem er ákveðin tegund af dúlsímer eða simbal sem tíðkaðist við Miðjarðarhafið til forna. Hún hefur skapað sér sinn eigin psalterium-stíl, ef svo má að orði komast, og smíðað hann úr flamenkó-takti, spuna og tónabrotum sem rekja má til uppruna hljóðfærisins í Persíu.

Hún hefur komið fram á ýmsum hátíðum, kynnt þar hljóðfærið og leikið á það. Hún hefur leikið á psalterium með hljómsveitum og listamönnum á borð við L’Arpeggiata, Christinu Pluhar, Chano Dominguez, Pepe Habichuela og La Folata. Marina Albero kemur einnig reglulega fram sem djasspíanisti, hefur unnið til verðlauna fyrir leik sinn og spilar reglulega með Hans Teuber, Evan Flory-Barnes, Jeff Busch og Jeff Johnson.