Schola cantorum

Schola cantorum

Schola cantorum

Kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, var stofnaður árið 1996 af Herði Áskelssyni kantor í félagi við nokkra meðlimi úr Mótettukór Hallgrímskirkju. Allar götur síðan hefur kórinn gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku tónlistarlífi. Frumflutningur á verkum íslenskra tónskálda hefur jafnan vegið þungt á efnisskrá kórsins en einnig fjölröddun endurreisnartímans auk þess sem Schola cantorum hefur flutt ýmis stórvirki barokksins ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju.

Schola cantorum hefur komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum víðsvegar um Evrópu og í Japan. Haustið 2015 var kórinn m.a. valinn til að koma fram á fimm tónleikum á tónlistarhátíðinni Culturescapes í Sviss og vorið 2017 söng kórinn ferna tónleika í boði Fílharmóníusveitar Los Angeles á Reykjavík Festival í Walt Disney Hall auk þess að halda a cappella tónleika í First Congregational Church í LA á vegum hátíðarinnar og hlaut afburðadóma.

Í mars 2018 frumflutti Schola cantorum óratóríuna Eddu II eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Verkið var hljóðritað af sænska útgáfufyrirtækinu BIS sem þáttur í heildarútgáfu fyrirtækisins á hljómsveitarverkum tónskáldsins. Kórinn kemur víðar við sögu í þeirri útgáfu. Schola cantorum sendi frá sér diskinn Meditatio árið 2016, einnig í samstarfi við BIS,  þar sem hljóma margar áhrifaríkar tónsmíðar kórtónbókmenntanna frá 20. og 21. öld, íslenskar jafnt sem erlendar. Hefur diskurinn hlotið lofsamlegar viðtökur víða um heim.

Schola cantorum hefur unnið með fjölmörgum listamönnum við tónleikahald og upptökur. Má þar nefnaBjörk, Sigur Rós, Jóhann Jóhannson, Kjartan Sveinsson, Tim Hecker og sænska dúettinn Wildbirds and Peacedrums. Þá má geta þess að söngur kórsins gegnir veigamiklu hlutverki í tónlist á hinum vinsæla tölvuleik God of War sem Sony gaf út vorið 2018. Schola cantorum hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir söng sinn og unnið til verðlauna í keppnum í Frakklandi og á Ítlaíu. Kórinn var tilnefndur tilTónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009.

Schola cantorum var valinn Tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum 2017.

Af nýlegum verkefnum kórsins má nefna þá máttugu tónsmíð Requiem eftir Alfred Schnittke sem kórinn flutti ásamt hljómsveit og einsöngvurum innan Schola cantorum, síðastliðinn febrúar í Hallgrímskirkju.

Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.