Sigríður Ósk Kristjánsdóttir

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran stundaði framhaldsnám í söng við óperudeild Royal College of Music í London þar sem hún útskrifaðist með Artist Diploma með fyrstu einkunn og meistaragráðu. Áður lauk hún 8. stigi í söng og píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar Magnússon. Sigríður sækir nú tíma hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur.

Sigríður kemur reglulega fram í óperum, á ljóðatónleikum og í óratoríum hérlendis og erlendis, m.a. söng hún nýverið hlutverk Waltraute í Valkyrjunum eftir Wagner með LidalNorth sem var flutt í Norsku þjóðaróperunni í Oslo. Hún söng í uppfærslu Ensku Þjóðaróperunnar á óperunni Jakob Lenz eftir Wolfang Rihm. Á Glyndebourne Óperuhátíðinni söng hún hlutverk 5. Nunnu í frumflutningi á Love and Other Demons eftir Peter Eötvös undir stjórn Vladimir Yurovsky og var Sandman í Hans og Grétu. Í Berlín söng hún í Insanity með framsækna óperufélaginu Kiez Oper. Sigríður Ósk hefur komið regluega fram í London með The Classical Opera Company m.a. söng hún Arbate í Mitridate eftir Mozart við mikið lof gagnrýnenda í The Times. Hún flutti kantötuna Arianna a Naxos eftir Haydn með fortepíanóleikaranum Gary Cooper í Kings Place í London. Hún söng fyrir þeirra hönd í beinni útsendingu í þættinum In tune á BBC 3. Með English Touring Opera söng hún Arcane í óperunni Teseo eftir Handel.

Sigríður hefur komið fram í ýmsum virtum tónleikasölum eins og Royal Albert Hall og St. Martin-in-the-Fields. Hún söng í Cadogan Hall ásamt Dame Emma Kirkby en tónleikunum var útvarpað á Classic FM. Sigríður söng inn á hljómdiskinn Engel Lund’s Book of Folk Songs ásamt Lieder Theatre London sem gefinn var út af Nimbus Records. Söngur Sigríðar Óskar hljómar um þessar mundir í dansverkinu Plateau Effect flutt af þekktasta nútímadansflokki Svíþjóðar, Cullberg Ballet.

Á Íslandi hefur Sigríður sungið m.a. Þriðju dömu með Íslensku Óperunni í Töfraflautunni. Á Myrkum músíkdögum frumflutti hún á Íslandi Adriana Songs eftir Kaiu Saariaho. Hún flutti ásamt Elekra Ensemble Chansons Madécases eftir Ravel en flutningurinn var valinn af Víðsjá einn af fimm bestu tónlistarviðburðum ársins 2011 . Sigríður söng með Mótettukór Hallgrímskirkju árið 2011 í Jóhannesarpassíunni.  Í haust fer Sigríður Ósk með hlutverk Rosinu í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini í uppfærslu Íslensku Óperunnar.