Jóhann Nardeau

Jóhann Nardeau

Jóhann Nardeau lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2006. Síðan þá hefur hann verið við nám og störf í París.

Hann hlaut gullverðlaun á prófi í Conservatoire Nationale de Région de Rueil-Malmaison þar sem Eric Aubier var aðalkennari hans.

Vorið 2013 lauk hann meistaraprófi frá Conservatoire National Supérieur de Musique et de Danse de Paris með hæstu einkunn.

Meistaraverkefni Jóhanns fólst í því að hljóðrita geislaplötuna Söng Bóreasar með fjórum verkum eftir norræn samtímatónskáld. Jóhann vann til verðlauna í alþjóðlegum trompetkeppnum í Búdapest árið 2009 og í Moskvu árið 2011.

Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2013 sem bjartasta vonin. Á Íslandi hefur Jóhann komið oftsinnis fram sem einleikari og flutt flest einleiksverk sem samin hafa verið fyrir trompet. Jóhann lék á Hátíðarhljómum við áramót í Hallgrímskirkju með Baldvini Oddssyni í lok árs 2018. Jóhann Nardeau hefur starfað sem lausamaður í mörgum virtum hljómsveitum í París.

Má þar nefna hljómsveit Parísaróperunnar, Fílharmóníuhljómsveit franska útvarpsins, Orchestre de Paris og Ensemble Intercontemporain. Jóhann gegndi um skeið stöðu fyrsta trompetleikara í Orchestre des Lauréats du Conservatoire.

Undanfarin misseri hefur Jóhann starfað sem trompetkennari í Sèvres í næsta nágrenni við París.