Æfingar eru nú hafnar af krafti fyrir Kirkjulistahátíð 2015. Ber þar hæst undirbúning fyrir hina stórkostlegu óratóríu Händels um Salómon konung sem flutt verður 15. og 16. ágúst næstkomandi, en Mótettukór Hallgrímskirkju syngur þessa dagana sleitulaust í heilum átta röddum og ríkir mikil eftirvænting og gleði í hópnum vegna tónleikanna.
Æfingar stjórnanda með einsöngvurum eru einnig komnar í fullan gang og styttist í að barokkhljómsveitin sem leikur í Salómoni komi til landsins.
Þá eru barokkdansarar farnir að dusta rykið af hárkollunum og stíga sporin af miklum móð fyrir opnunarhátíðina föstudaginn 14. ágúst.
Miðasala á viðburði hátíðarinnar gengur vel, en hún fer fram á midi.is og einnig í Hallgrímskirkju (s. 510 1000 – opið alla daga 9–17 og til kl. 21 frá og með mánudeginum 10. ágúst).