Kirkjulistahátíðin 2019

Hallgrímskirkja
Setningarathöfn Kirkjulistahátíðar 2019
06/05/2019
Finnboga Pétursson - YFIR OG ÚT
Yfir og út
01/06/2019

Kirkjulistahátíðin 2019

Dagskrá Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju 1. – 10. júní 2019

Kirkjulistahátíð verður haldin í Hallgrímskirkju dagana 1.- 10. júní. Mikið hefur verið lagt í að bjóða upp á metnaðarfulla og fjölbreytta dagskrá. Alls verða 20 viðburðir á dagskrá á 10 dögum og munu þeir fara fram í Hallgrímskirkju og í Ásmundarsal. Mikil áhersla er lögð á nýsköpun eins og á fyrri Kirkjulistahátíðum. Til að mynda verða tvö tónverk frumflutt á hátíðinni, Hvítasunnukantata eftir Sigurð Sævarsson og Mysterium – óratóría eftir Hafliða Hallgrímsson. Finnbogi Pétursson myndlistarmaður er einnig með nýja sýningu bæði í Hallgrímskirkju og í Ásmundarsal. Um 200 listamenn munu koma fram á hátíðinni, jafnt innlendir sem erlendir. Setningarathöfn Kirkjulistahátíðar fer fram laugardaginn 1. júní kl. 15:00 þar sem erlendur orgelvirtúós leikur verk eftir J.S. Bach og Duruflé. Einnig verða stutt ávörp verða flutt. Sýning Finnboga Péturssonar í Hallgrímskirkju verður opnuð, en eftir athöfnina í kirkjunni ganga gestir yfir í Ásmundarsal, þar sem sýning Finnboga í safninu er opnuð og setningu Kirkjulistahátíðar áfram fagnað þar.

Upphafstónleikar Kirkjulistahátíðar er frumflutningur á nýrri óratóríu eftir Hafliða Hallgrímsson sem ber heitið Mysterium en verkið verður flutt tvisvar sinnum, 1. og 2. júní. Rúmlega 100 flytjendur taka þátt í flutningnum en verkið er fyrir tvo kóra, hljómsveit, tvö orgel og fjóra einsöngvara. Verkið er tileinkað Herði Áskelssyni og Listvinafélagi Hallgrímskirkju. Fjöldi annarra viðburða verða á dagskrá auk þess verður boðið upp á málþing í Ásmundarsal á meðan á hátíðinni stendur, bæði tónleikaspjall og myndlistarspjall.

Helgin 7.-10. júní verður helguð barokkflutningi þar sem nokkrar glæsilegar hvítasunnukantötur eftir J.S. Bach verða fluttar. Í ár eru 15 ár síðan Alþjóðlega barokksveitin í  Hallgrímskirkju kom fyrst hingað til lands og þá undir merkjum Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Den Haag. Af því tilefni heldur barokksveitin sjálf í fyrsta sinn sína eigin tónleika á Íslandi og verður m.a. hljómsveitarsvíta í h-moll eftir J.S. Bach leikin þar. Í Alþjóðlegu barokksveitinni eru íslenskir og erlendir barokkhljóðfæraleikarar í fremstu röð, sem munu leika undir styrkri stjórn Harðar Áskelssonar.

Listvinafélag Hallgrímskirkju hefur staðið fyrir Kirkjulistahátíð að jafnaði annað hvert ár frá vígslu kirkjunnar, fyrst vorið 1987 og er þetta 15. hátíðin sem haldin er. Upphaflega var hátíðin haldin um hvítasunnuna það ár sem Listahátíð í Reykjavík var ekki haldin og er nú komin aftur á sinn upprunalega tíma eftir að Listahátíð í Reykjavík er aftur haldin annað hvert ár. Alls komu um 300 listamenn fram á Kirkjulistahátíðinni árið 2015, þar af 49 erlendir listamenn. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi er Hörður Áskelsson kantor Hallgrímskirkju. Eiginkona hans, Inga Rós Ingólfsdóttir sellóleikari, stýrir nú hátíðinni í 8. sinn, en hún hóf störf sem framkvæmdastjóri Kirkjulistahátíðar árið 2000.

Af erlendu listamönnunum sem munu koma fram á hátíðinni þá er Psaltarium- leikarinn Marina Albero heimsþekkt en hún mun leika með kammerhópnum Umbru. David Erler kontratenór er mjög eftirsóttur ungur kontratenór sem er m.a. nýkominn úr tónleikaferð með Philip Herreweghe að syngja Bach.  Orgelleikarinn David Cassan vann 1. verðlaun í Alþjóðlegu orgelkeppninni í Chartre 2016 og er mjög eftirsóttur einleikari um allan heim. Hann mun halda tónleika með trompetleikurunum Jóhanni Nardeau og Baldvini Oddssyni. Georgia Browne flautuleikari frá Ástralíu kemur fram sem einleikari á tónleikum barokksveitarinnar.  Isabelle Demers konsertorganisti mun leika á upphafstónleikum hátíðarinnar. Af innlendu söngvurunum munu Hanna Dóra Sturludóttir, Herdís Anna Jónsdóttir, Elmar Gilbertsson og Oddur Arnþór Jónsson, sem öll hafa slegið í gegn í íslensku óperunni, syngja í Mysterium eftir Hafliða Hallgrímsson. Benedikt Kristjánsson, tenór, hefur getið sér gott orð sem barokksöngvari og mun syngja í Bach-kantötum hátíðarinnar. Hildigunnur Einarsdóttir, mezzó-sópran, er rísandi stjarna í klassíska söngheiminum og hefur getið sér gott orð í uppfærslum íslensku óperunnar en hún mun syngja á barokktónleikunum. Orgelleikarinn Björn Steinar Sólbergsson mun koma nokkrum sinnum fram á hátíðinni. Guðmundur Vignir Karlsson, söngvari og raftónlistamaður, mun síðan nýta midi-tölvubúnað Klais orgelsins í Hallgrímskirkju og verk tónskálda verða leikin af tölvu. Halldór Hauksson mun síðan bjóða upp á verk í hljóðum, tali og tónum mannsins að samastað í staðlausum heimi, innblásið af samnefndri skáldsögu eftir Albert Camus. Dagskráin er gríðarlega fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir alla, jafnt unga sem aldna.

Messur verða á dagskrá á meðan á hátíðinni stendur og til að mynda mun Hljómeyki koma fram í messu þann 2. júní á sjómannadaginn kl. 11:00 ásamt málmblásarakvartett. Graduale Nobili mun síðan syngja í messu á annan í Hvítasunnu, þann 10. júní kl. 11:00.

Dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu Kirkjulistahátíðar, www.kirkjulistahatid.is.

Áhugasamir geta keypt miða á einstaka viðburði á www.midi.is en að auki verður hægt að kaupa hátíðarpassa sem mun gilda á alla viðburðina