Kirkjulistahátíð 2015 er nú lokið og er sannarlega óhætt að segja að þessir tíu dagar hafi verið stórfengleg listaveisla.
Allt frá fyrsta spori barokkdansaranna á opnunarhátíðinni þann 14. ágúst síðastliðinn og þar til lokatónninn í nýju kórverki Jóns Hlöðvers Áskelssonar í flutningi Schola cantorum dó út þann 23. ágúst, rak hver stórviðburðurinn í íslensku tónlistarlífi annan og þegar upp var staðið höfðu lagt hönd á plóg meira en 400 listamenn frá 18 löndum á 30 skipulögðum viðburðum. Á bilinu 15-17 þúsund gestir sóttu hátíðina.
Fimm stjörnu upphaf
Hátíðin hófst á frumflutningi á Íslandi á óratóríunni Salómoni eftir Händel. Flytjendur voru Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag og fimm einsöngvarar, þeirra á meðal Robin Blaze, kontratenórinn þekkti frá Bretlandi. Í stuttu máli sagt létu þeir tónleikar engan ósnortinn, áhorfendur héldu vart vatni og gagnrýnandi skrifaði hástemmt lof og gaf heilar fimm stjörnur:
Það er þrekvirki að koma svona löngu tónverki til skila til áheyrenda án þess að þeir sofni. Þarna var tónlistin hreinasta opinberun. Maður naut hvers tóns og öðlaðist innsýn í veröld Gamla testamentisins, hún birtist manni ljóslifandi. Mikill er máttur listarinnar! Tónlistarlífið í Hallgrímskirkju stendur svo sannarlega í blóma.
Frumkraftur og fáguð mýkt
En veislan var rétt hafin og fleiri frábærir og afar fjölbreyttir tónleikar fylgdu í kjölfarið. Til dæmis fékk Klais-orgelið að njóta sín mjög á þrennum tónleikum í vikunni á eftir. Ung raftónskáld nýttu sér nýjan midi-búnað orgelsins til að skapa glænýjan hljóðheim, áheyrendur spönnuðu allt frá táningum til eldri borgara og voru allir jafn hrifnir.
Næstur settist við orgelið sannkallaður virtúós, Olivier Latry, orgelleikari við Notre Dame í París og spilaði tvenna tónleika. Magnaður leikur Latrys og listfeng raddnotkun verða lengi í minnum höfð og þá ekki síst fjórhentur leikur hans og konu hans, Shin-Young Lee, en þau hjónin léku Vorblót Stravinskís af miklum og ryþmískum frumkrafti og uppskáru fagnaðarlæti.
Händel fékk að sýna sínar mýkri hliðar á kammertónleikum í safnaðarheimili Hallgrímskirkju og komust miklu færri að en vildu. Skoski blokkflautuleikarinn Ian Wilson hafði sett saman afar metnaðarfulla, sögulega dagskrá sem endurspeglaði stofutónlist á tímum tónskáldsins í Lundúnaborg og lék undurfallega ásamt kammersveitinni Nordic Affect og íslenskum einsöngvurum.
Kóngsmenn og kvennasálmar
Það var enginn skortur á hæfileikaríkum listamönnum frá Bretlandi á hátíðinni að þessu sinni því heimsfrægir gestir frá Cambridge sóttu hátíðina einnig heim og settu mikinn svip á síðari hluta hátíðarinnar. Karlakórinn King´s Men undir stjórn hins víðkunna Stephens Cleobury þykir framúrskarandi góður, en söngvararnir hafa allir sungið frá blautu barnsbeini og eru ótrúlega færir miðað við að vera aðeins um tvítugt. Skartaði kórinn meðal annars heilum fjórum kontratenórum og söng svo unun var á að hlýða bæði enskan Evensong fyrir troðfullri kirkju, tónleika með endurreisnar- og barokktónlist og dægurlög á Sálmafossi á Menningarnótt
Sálmafossinn var að þessu sinni óvenju fjölbreyttur og skartaði fyrir utan léttpoppaða Cambridgemenn meðal annars kvikmyndatónlist leikinni á Klais-orgelið. Metaðsókn var og áheyrendur tóku undir sönginn af krafti. Fimm glænýir sálmar eftir tíu íslenskar konur voru auk þess frumfluttir þann dag og er tilhlökkunarefni að taka þá í notkun við helgihald í framtíðinni.
Þá voru haldnar tvær hátíðarmessur á Kirkjulistahátíð þar sem fram komu hátíðarlistamenn og voru báðar afar vel sóttar.
Hátíðarlok –og þó ekki
Kammerkórinn Schola cantorum lét ljós sitt skína á hátíðinni og hélt tvenna tónleika, aðra með sígildri íslenskri kórtónlist og síðan lokatónleika hátíðarinnar. Á þeim tónleikum frumflutti kórinn heil þrjú ný verk og þótti flutningur kórsins á Miserere eftir Allegri magnaður. Segir í umfjöllun:
Kórinn Schola cantorum söng og gerði það svo fallega að lengi verður í minnum haft. … Dulúð og helgi var yfir tónlistinni sem komst fullkomlega til skila í vönduðum flutningnum. … Ekki verður annað sagt en að það hafi verið frábær endir á glæsilegri Kirkjulistahátíð.
Að lokum skal minnt á það að þótt hátíðinni sé lokið mun hin margbrotna myndlistarsýning Helga Þorgils Friðjónssonar á Kirkjulistahátíð 2015 standa í Hallgrímskirkju fram að aðventu. Enginn verður svikinn af að skoða sýninguna, sem teygir anga sína um alla kirkjuna, allt frá anddyri aftur í kór, upp í hvelfingu kirkjuskipsins og inn í hliðarganga.