Fullt hús og fagnaðarlæti á opnunarhelginni

Salómon: Kór og hljómsveit saman í barokksveiflu
13/08/2015
Salómon fær fimm stjörnur
18/08/2015

Fullt hús og fagnaðarlæti á opnunarhelginni

Opnunarhelgi Kirkjulistahátíðar 2015 er nú afstaðin og má með sanni segja að parrukk, pomp og prakt hafi verið ráðandi í dagskránni.

Sjálf setningarathöfnin á föstudeginum var viðhafnarmikil og vel lukkuð, en húsfyllir var og fengu gestir meðal annars að hlýða á brot úr óratóríunni glæsilegu Salómoni eftir Händel og skoða ný verk eftir Helga Þorgils Friðjónsson sem prýða nú kirkjuna allt frá annddyri aftur í kór – svífa meira að segja í lausu lofti í kirkjuskipinu.

Að öðrum ólöstuðum voru það þó barokkdansarar úr röðum Mótettukórsins sem voru stjörnur athafnarinnar, en þeir stigu þokkafullan hornpipe-dans í fullum barokkklæðum við lifandi undirleik barokkhljómsveitar og var þeim vel fagnað að dansi loknum.

Óratórían Salómon var síðan frumflutt á laugardeginum og sunnudeginum undir stjórn Harðar Áskelssonar fyrir fullu húsi og mátti vart á milli sjá hverjir nutu stundarinnar betur, listamennirnir eða áheyrendurnir. Í öllu falli er ljóst að sjaldan hafa meiri fagnaðarlæti heyrst í Hallgrímskirkju heldur en í lok sunnudagstónleikanna og virtust gestir síður en svo þreyttir eftir ríflega þriggja tíma tónleika!

Allt lagðist á eitt um að gera þennan flutning á Salómon ógleymanlegan: Unaðsleg kontratenórrödd Robins Blaze, sem söng af sannri innlifun, lipur og dansandi leikur barokksveitarinnar frábæru, íslensku einsöngvararnir sem fóru allir á kostum og kórinn sem söng af bæði fagmennsku og mikilli gleði.