Jónas Sen tónlistargagnrýnandi var yfir sig hrifinn af flutningnum á Salómoni í Hallgrímskirkju um helgina: Fimm stjörnur í Fréttablaðinu í dag!
„Algerlega dásamlegir tónleikar með hrífandi söng og glæsilegum hljóðfæraleik – Salómon var opinberun – Þetta drama skilaði sér fullkomlega undir kraftmikilli stjórn Harðar Áskelssonar – Fjölmörg kóratriði voru meistaralega vel útfærð af Mótettukór Hallgrímskirkju. Þau voru svo flott að maður fékk gæsahúð hvað eftir annað. Kórinn var svo sannarlega í banastuði.“
Þá fer Jónas lofsamlegum orðum um alla einsöngvarana sem og hljómsveitina. Lýkur hann rýninni með þessum orðum:
„Það er þrekvirki að koma svona löngu tónverki til skila til áheyrenda án þess að þeir sofni. Þarna var tónlistin hreinasta opinberun. Maður naut hvers tóns og öðlaðist innsýn í veröld Gamla testamentisins, hún birtist manni ljóslifandi. Mikill er máttur listarinnar! Tónlistarlífið í Hallgrímskirkju stendur svo sannarlega í blóma.“
Eftirlátum einum tónleikagestinum orðið að lokum en hann var síður en svo búinn að fá nóg eftir hátt í fjögurra tíma tónleika: „Hefði gjarnan hlustað í tvo tíma í viðbót!“